Sögusýningar
Bæklingar
Nýtt fræðslurit um Vatnaleiðina



Vatnaleiðin

Í nýjasta fræðsluriti FÍ, sem er það fimmt­ánda í röðinni, er umfjöllunarefnið fjalllendið milli Snæfells­ness og Borgarfjarðar. Dalirnir: Hnappadalur á Snæfellsnesi og Norður­árdalur í Borgarfirði, ramma inn svæðið og milli þeirra liggja: Hítardalur og Langa­vatnsdalur. Margbreytilegt fjall­lendi og heiðarlönd setja svip á svæðið, en ekki síst eru það öll vötnin frá Hlíðarvatni í Hnappadal að Hreðavatni í Norðurárdal. Ritinu er ætlað að bæta úr skorti á aðgengilegum leiðarlýsingum og kortum, bæði varðandi Vatnaleiðina milli Hnappa­dals og Norðurárdals og eins um áhuga­verð göngusvæði á þessum slóðum. Ritið fæst á skrifstofu Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6 en Sögumiðlun sá um umbrotið.


Í ritinu eru ýmsar skemmtilegar sögur. Hér er ein í tilefni af því að smalamennska stendur nú sem hæst og gerist hún í Langavatnsdal. Vonum við að smalamenn nútímans séu lausir við alla drauga. „Á þessum slóðum gerðist það kringum 1790 að Skafti bóndi Bárðarson í Þverholtum í Álftanes­hreppi, var í sinni síðustu fjallaferð af Sópandaskarði og gerðist mjög drukkinn. Lenti hann í illdeilum við hreppstjórann og féll af baki niður í straumþungt Mjóadalsgilið og var þar með allur. Hann þótti hálfu verri dauður en lifandi og sagður hafa drepið einn leitarmann. Stóð smalamönnum mikill stuggur af draugnum. Í byrjun tuttugustu aldar var hins vegar allur máttur úr „Skafta” og gangnamenn óhultir.”

Höfundur Vatnaleiðarinnar er Reynir Ingibjartsson.