Sögusýningar
Bæklingar



Almanak SORPU komið út

Almanak SORPU bs er nú komið út í níunda skipti en það var að þessu sinni unnið í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Almanakinu er dreift á öllum starfsstöðvum SORPU, s.s. á endurvinnslustöðvum og í Góða hirðinum, nytjamarkaði SORPU og líknarfélaga.

Almanakið inniheldur að þessu sinni hugmyndir og uppskriftir að leikföngum sem gerð eru úr verðlausum efnum. Leikföngin eru byggð á indverskum hefðum en í september 2009 var haldin námstefna fyrir leik- og grunnskólakennara þar sem einn fremsti sérfræðingur Indlands á sviði hefðbundinna leikfanga, Sudarshan Khanna prófessor, fjallaði um leikfangagerð úr einföldum og endurnýttum efniviði. Í kjölfarið var svo verkleg kennsla þar sem um 200 kennarar gerðu nokkur einföld en heillandi leikföng byggð á hönnun og hugmyndafræði Sudarshans. Á næstu vikum þar á eftir komu nemendur úr öllum grunn- og leikskólum Garðabæjar í efnisveitu og vinnusmiðju á Garðatorgi og unnu áfram með ýmsar af hugmyndum Sudarshans Khanna. Hugmyndin er að útvíkka hugsanagang barna og kenna þeim að sjá möguleikana í nýjum efnivið. Umbreyting verðlausra hluta í leikföng er skapandi og gefur sköpunargleði og fagurfræði barnanna færi á að njóta sín. Hugmyndin er að börnin og við öll verðum meðvitaðri um umhverfi okkar og nærsamfélag með því að að skoða betur hverju við köstum burt og hvað má nýta. Í nútíma samfélagi hefur verið viðtekin venja að henda því sem ekki er þörf fyrir lengur og einnota umbúðir fara í ruslið svo tonnum skiptir á hverjum degi. Almanakinu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar og sýna fram á að í ruslinu geta falist verðmæti. Efniviður í allskyns nýja hluti leynist víða og ruslið getur orðið að einstökum listaverkum eða nýjum vörum og umbúðum við endurvinnslu.

Sögumiðlun hafði umsjón með gerð almanaksins og sá um hönnun þess.