Sögusýningar
Bæklingar

Sýning um sr. Harald Níelsson

 

Sr. Haraldur Níelsson

Þann 30. nóvember opnaði sýning um sr. Harald Níelsson, prófessor (1868-1928) í Þjóðarbókhlöðunni. Sögumiðlun sá um hönnun sýningarinnar og Pétur Pétursson guðfræðiprófessor er höfundur textans, en hann vinnur nú að bók um sr. Harald. Gamlatestamentisþýðing Haralds var gefin út árið 1908 og vakti hún deilur og sumir kölluðu hana Heiðnu biblíuna. Verk hans ber það með sér að hann hafði aflað sér afburða þekkingar í biblíufræðum. Hann lagði mikla áherslu á fagurt íslenskt mál og þýðing hans og predikanir bera vott um listfengi á því sviði. 1908 var Haraldur vígður prestur holdsveikraspítalans í Laugarnesi þar sem hann þjónaði til æviloka. Árið eftir var hann kosinn prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, en sagði því embætti af sér af læknisráði. Haraldur var mikill áhugamaður um spíritisma og tók þátt í að stofna sérstakt félag (Tilraunafélagið) um miðlarannsóknir. Hann var kennari við Prestaskólann og var skipaður prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands við stofnun hans árið 1911. Haraldur Níelsson var rektor Háskólans þegar hann lést 11. mars 1928. Sýningunni lýkur í janúarlok.