Sögusýningar
Bæklingar

Útilegumenn í Ódáðahrauni

 

Útilegumenn í Kiðagili
Útilegumenn í Ódáðahrauni

Þann 17. júní opnaði sýningin Útilegumenn í Ódáðahrauni - goðsögn eða veruleiki? í Kiðagili, Bárðardal. Sýningin er opin í sumar en nánari upplýsingar um afgreiðslutíma og fleira er að finna í bæklingi hér.

Skoða bækling

Margar skemmtilegar sagnir af útilegumönnum hafa lifað með þjóðinni en hægt er að kynna sér nokkrar þeirra á sýningunni. Hér er ein góð af útilegumanninum Gretti.

Grettir glímir við tröllskessu á Sandhaugum
Gretti barst eitt sinn til eyrna að bóndi og vinnumaður á Sandhaugum í Bárðardal hefðu horfið hvor sín jólin á meðan fólkið á bænum var í kirkju. Grettir baðst gistingar að Sandhaugum og kvaðst heita Gestur. Hann bauðst til að vera heima á meðan fólkið færi í jólaguðsþjónustuna. Húsfreyja bjóst þó við að vera heima þar sem áin væri ófær. Grettir bauðst þá til að vaða með húsfreyju og dóttur hennar yfir ána, setti dótturina í kjöltu móðurinnar og hélt á þeim í vinstri hendi og notaði hægri hendi til banda frá sér ísjökum, en áin náði upp í brjóst honum. Grettir fleygði þeim mæðgum í land og hélt Grettir til baka að Sandhaugum. Um nóttina kom í stofuna mikil tröllskessa með trog í annarri hengi og hníf í hinni. Hún réðist að Gretti, en hann tók á móti og flugust þau á lengi vel. Dró hún Grettir síðan niður til árinnar og að gljúfrum og tókust þau þar á alla nóttina. Loks tókst Gretti að rífa hægri hendina lausa og nær saxinu sem hann bar við beltið og hjó í öxl tröllinu svo tók af hægri höndina. Steyptist skessan þá í gljúfrið. Grettir lá lengi á Sandhaugum og gerði húsfreyja vel við hann og dalbúar leyndu Gretti um veturinn. Grettir taldi að tröllkonan hefði steypst í gljúfrið er hann hjó af henni höndina, en Bárðdælir töldu hana hafa dagað uppi meðan þau glímdu og sprungið, þegar hann hjó af henni höndina og standi þar enn í konulíki á bjarginu. Konrad Maurer segir frá því að sér hafi verið sýndur staðurinn þar sem Grettir hjó hönd af tröllkonunni og heiti þar Grettisstöðvar. Einnig hafi sér verið sýnd Eyjardalsá sem Grettir bar Steinvöru húsfreyju og dóttur hennar yfir. Þar sé nú einungis lítill lækur, en hann sé sagður geta orðið svo mikill að hann verði jafnvel ófær hestum.