Sögusýningar
Bæklingar
Áfram sögutengd ferðaþjónusta! 

 

Sjóræningjahúsið á Patreksfirði
Sjóræningjahúsið á Patreksfirði


Á nýbyrjuðu ári þykir góður siður að líta yfir farinn veg. Árið 2008 var viðburðaríkt hjá Sögumiðlun. Nýjum vef var hleypt af stokkunum og Gyða Sigríður Björnsdóttir hóf störf hjá fyrirtækinu. Árið í heild var erilsamt og verkefnin mörg, þó talsvert hafi dregið úr þeim á síðustu vikum ársins líkt og hjá flestum öðrum landsmönnum. Gerð voru skilti og bæklingar fyrir Ferðafélag íslands, Vestfirði á miðöldum, Kjósarhrepp og fleiri aðila. Unnið var að sögusýningu, vef og framtíðaráfomum með Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði; gerð sögusýning og sýningarskrá um Útilegumenn í Ódáðahrauni fyrir Svartárkotsverkefnið í Bárðardal og sögusýningin Reykvíska eldhúsið í Aðalstræti 10 og Höfuðborgarstofu var unnin með félaginu Matur – saga – menning, svo nokkuð sé nefnt. Öll þessi verkefni eru sjálfsprottin utan safnageirans og eiga það sameiginlegt að vera til marks um að sprotahugmyndir hafa verið vaxandi í sögutengdri ferðaþjónustu. Vonandi ber þjóðin gæfu til að slíkar hugmyndir koðni ekki niður á nýbyrjuðu ári nú þegar herðir að íslensku samfélagi. Ef vel er haldið á málum á að vera hægt að auka ferðamannstrauminn og ferðaþjónustuna þar með, nú þegar hagstætt er að versla hérlendis. Áfram sögutengd ferðaþjónusta!