Sögumiðlun hefur komið að gerð þriggja
sýninga um Jón Sigurðsson á árinu 2011
í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá
fæðingu hans.
Lífsverk Jóns Sigurðssonar
Sýningin Lífsverk - um ævistarf Jóns Sigurðssonar var opnuð í Þjóðarbókhlöðunni 20. apríl. Sögumiðlun sá um hönnun sýningarinnar og skrár sem henni fylgir.
Skjöl tengd Jóni Sigurðssyni
Sýning á skjölum í Þjóðskjalasafni Íslands sem tengd eru Jóni Sigurðssyni var opnuð í Þjóðmenningarhúsinu í apríl. Sögumiðlun sá um hönnun og samantekt.
Pakkhúsið í Ólafsvík
Tvö spjöld um sögu hafnarinnar og pakkhússins í Ólafsvík voru sett upp í lok maí. Sögumiðlun sá um samantekt texta og hönnun.
Silfur Egils – sögusýning um Mosfellsdal á víkingaöld
Í Kjarnanum í Þverholti hefur verið sett upp sögusýningin Silfur Egils sem fjallar um Mosfellsdal á víkingaöld og dvöl Egils Skallagrímssonar í Mosfellsdal. Sýningin samanstendur af spjöldum með ljósmyndum af sviðsettum atriðum úr Egils sögu og stendur út ágúst. Sýningin hefur þegar verið sett upp í Lágafellsskóla og Varmárskóla. Höfundar sýningarinnar eru Brynjar Ágústsson, Elín Reynisdóttir, Ólafur J. Engilbertsson og Jesse Byock sem hefur verið í forsvari fornleifarannsókna að Hrísbrú. Mosfellsbær stendur að sýningunni í samstarfi við Sögumiðlun, Víkingaminjar og Fornleifarannsóknina á Hrísbrú.
Fágætar plöntur á Snæfjallaströnd
Í byrjun júlí var afhjúpað skilti um fágætar plöntur á Snæfjallaströnd á vegum Snjáfjallaseturs og gefið út rit um sama efni eftir Hörð Kristinsson. Sögumiðlun sá um hönnun ritsins og skiltisins.
30. janúar 2011
Sögumiðlun 10 ára
Um þessar mundir fagnar Sögumiðlun 10 ára afmæli. Fyrirtækið einbeitti sér einkum fyrstu árin að gerð sögusýninga og ýtti úr vör ýmsum verkefnum á sviði sögu- og menningartengdrar ferðaþjónustu auk þess að þjónusta söfn og menningarstofnanir. Síðari árin hefur hönnunarsviðið víkkað út og skiltagerð, útlitshönnun á vefsíðum, bæklingagerð, umbrot bóka og geisladiska og almenn auglýsingahönnun hefur orðið sífellt stærri þáttur í starfseminni. Eftir sem áður er meginstefið í starfsemi Sögumiðlunar að stuðla að því að miðla sögu og efla söguvitund í samfélaginu. Gott dæmi um það er Egilssöguverkefni sem nú er í vinnslu í samvinnu við Mosfellsbæ og Víkingaminjar ehf. Þar verða sviðsett atriði úr Egils sögu með aðstoð félaga í víkingafélögunum Rimmugýg og Hringhorna. Verkefnið verður kynnt nánar innan fárra vikna.
Þegar rauði bærinn féll
Sögumiðlun hefur gefið út bókina Þegar rauði bærinn féll – minningabrot frá Ísafjarðarárum 1944-1953 eftir Engilbert S. Ingvarsson. Í bókinni er sagt frá bæjarbrag og atvinnulífi á Ísafirði áður en vélvæðing varð allsráðandi. Ísafjörður var kallaður „rauði bærinn", því jafnaðarmenn voru með meirihlutavald í verkalýðsfélögum og stærstu atvinnufyrirtækjum bæjarins. M.a. er sagt frá því í bókinni þegar Alþýðuflokkurinn missti meirihlutann í sögulegum kosningum 1946. Bókin fæst hjá Sögumiðlun og í helstu bókaverslunum.
Frá opnun vefsíðunnar 15. nóvember 2010
Vefur Minningarsjóðs Stefaníu Guðmundsdóttur
Opnaður hefur verið vefur Minningarsjóðs frú Stefaníu Guðmundsdóttur, sem var helsta leikkona höfuðstaðarins í byrjun 20. aldar og meðal merkustu brautryðjenda atvinnuleikhúss hér á landi. Minningarsjóðurinn var stofnaður af dóttur Stefaníu, leikkonunni Önnu Borg og manni hennar, danska leikaranum Poul Reumert. Styrkveiting úr sjóðnum hefur í senn verið viðurkenning á góðum árangri styrkþega og ferðastyrkur. Sögumiðlun sá um hönnun vefsins sem er á slóðinni www.stefaniusjodur.is.
Almanak Sorpu 2011
Almanak SORPU bs er nú komið út í tíunda skipti en það var að þessu sinni unnið í samstarfi við Iðnskólann í Hafnarfirði. Almanakinu er dreift á öllum starfsstöðvum SORPU, s.s. á endurvinnslustöðvum og í Góða hirðinum, nytjamarkaði SORPU og líknarfélaga. Sögumiðlun hafði umsjón með gerð almanaksins og sá um hönnun þess.