

Tónlist í Hafnarfirði
Haustið 2012 var þess minnst í Bókasafni Hafnarfjarðar að safnið var 90 ára, 50 ár voru frá láti Friðriks Bjarnasonar tónskálds og 100 ár voru frá fæðingu Páls Kr. Pálssonar organista. Friðrik gaf bókasafninu mikinn hluta eigna sinna og var þá stofnuð svonefnd Friðriksdeild við safnið. Páll Kr. Pálsson var fyrsti forstöðumaður Friðriksdeildar sem hefur að geyma eitt stærsta tónlistarskjalasafn landsins. Sögumiðlun útbjó sýningu og smárit í samvinnu við Njál Sigurðsson og Bókasafn Hafnarfjarðar af þessu tilefni.
Hægt er að lesa ritið hér.
Þórir Baldvinsson arkitekt
Sögumiðlun fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli. Fyrirtækið einbeitti sér einkum fyrstu árin að gerð sögusýninga, skilta og bæklinga, útlitshönnun á vefsíðum og umbroti bóka og ýtti úr vör ýmsum verkefnum á sviði sögu- og menningartengdrar ferðaþjónustu auk þess að þjónusta söfn og menningarstofnanir. Síðari árin hefur starfsemin færst meira að útgáfu. Nú er í undirbúningi bók um Þóri Baldvinsson arkitekt, sem var einn af helstu arkitektum funkisstefnunnar á Íslandi og einnig forstöðumaður Teiknistofu landbúnaðarins sem nútímavæddi sveitirnar um miðja síðustu öld. Úlfur Kolka, barnabarnabarn Þóris, hefur tekið ljósmyndir af helstu húsum hans um víða um landið. Þórir nam arkitektúr í San Francisco og var fyrsti Íslendingurinn til að læra arkitektúr í Bandaríkjunum. Greinar í bókinni verða eftir Árni Daníel Júlíusson, Jóhannes Þórðarson, Ólaf Tr. Mathiesen, Pétur H. Ármannsson og Ólaf J. Engilbertsson sem ritstýrir bókinni. Bókin verður litprentuð og í henni verða bæði gamlar og nýjar ljósmyndir og teikningar af byggingum Þóris. Vegna útgáfunnar leitar Sögumiðlun að myndum sem tengjast ævi og störfum Þóris, m.a. frá Teiknistofu landbúnaðarins og af Þóri og Jónasi frá Hriflu sem var mikill áhrifavaldur í lífi hans og náinn samverkamaður.
Steinn Steinarr – sýning í Steinshúsi
Á sýningu um Stein Steinarr sem opnuð var í Steinshúsi 15. ágúst 2015 er fjallað um helstu æviatriði Steins Steinarr — upprunaskáldsins við Djúp, hreppaflutninga í Saurbæ, fyrstu kynni af skáldskap hjá Stefáni frá Hvítadal, nám í Dölum hjá Jóhannesi úr Kötlum, fyrstu skáldskapartilraunir, námsdvöl að Núpi, lausamennsku í vinnu, útgáfur ljóða, upphaflega gerð Tímans og vatnsins, kynni Steins og Ásthildar Björnsdóttur, ferðalög Steins, áhrif hans á ungskáld, síðustu ár hans og ýmislegt fleira. Sýningin er unnin í samstarfi við Vaxtarsamning Vestfjarða, Menningarráð Vestfjarða, Uppbyggingarsjóð Vestfjarða, Alþingi og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir frumgögn, en Steinshús fær eftirgerðir til afnota á sýningunni. Ólafur J. Engilbertsson tók saman sýningartextann og Anna Yates sá um enska þýðingu hans. Björn G. Björnsson sá um hönnun sýningarinnar ásamt Ólafi J. Engilbertssyni. Sýningin er bæði á íslensku og ensku. Nýr vefur um Stein var opnaður 2019 þar sem nokkur skáld velja uppáhalds ljóð sitt eftir Stein og einnig má hlusta þar á tónlist við ljóð Steins. Páll Svansson sá um gerð vefsins http://www.steinnsteinarr.is/
Undurfagra ævintýr - líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar
Þann 16. nóvember 2012 var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur Oddgeirsdagur í Vestmannaeyjum. Opnuð var í Safnahúsi Vestmannaeyja sögusýningin Undurfagra ævintýr - líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar að viðstöddu fjölmenni. Á sýningunni mátti hlusta á nokkur laga Oddgeirs af safnútgáfunni Undurfagra ævintýr. Sýningin var síðan sett upp í Tónlistarskóla Vestmannaeyja og í Hörpu. Á sýningunni er greint frá samstarfi Oddgeirs við Árna úr Eyjum og Ása í Bæ og sagt frá tilurð þjóðhátíðarlaganna. Sýningin var í tilefni af 100 ára minningu Oddgeirs og var í samstarfi við Minningarsjóð Oddgeirs Kristjánssonar og Menningarráð Suðurlands. Sögumiðlun ehf sá um hönnun og textagerð.
