Tónlist í Hafnarfirði
Haustið 2012 var þess minnst í Bókasafni Hafnarfjarðar að safnið var 90 ára, 50 ár voru frá láti Friðriks Bjarnasonar tónskálds og 100 ár voru frá fæðingu Páls Kr. Pálssonar organista. Friðrik gaf bókasafninu mikinn hluta eigna sinna og var þá stofnuð svonefnd Friðriksdeild við safnið. Páll Kr. Pálsson var fyrsti forstöðumaður Friðriksdeildar sem hefur að geyma eitt stærsta tónlistarskjalasafn landsins. Sögumiðlun útbjó sýningu og smárit í samvinnu við Njál Sigurðsson og Bókasafn Hafnarfjarðar af þessu tilefni.
Hægt er að lesa ritið hér.
Steyptir draumar - líf og list Samúels Jónssonar
Sögumiðlun hefur gefið út bók um líf og list Samúels Jónssonar í Selárdal í samstarfi við Listasafn Samúels. Bókin hefur verið tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis. Í bókinni eru birtar myndir af verkum Samúels, sem flest eru í einkaeigu, en mörg glatast. Einnig eru birtar myndir sem sýna Samúel á síðustu árum hans á Brautarholti og myndir af listasafninu eftir lát hans. Jafnframt segir af endurreisnarstarfinu frá því Félag um endurreisn listasafns Samúels var stofnað 1998. Ólafur J. Engilbertsson er ritstjóri bókarinnar. Gerhard König skrifar um sýn og aðferðir Samúels og ásamt Kára G. Schram skrifa þeir um endurreisnarstarfið. Bókin er 160 blaðsíður að stærð, innbundin og í stóru broti. Hún fæst í helstu bókaverslunum og hjá útgefendum, Listasafni Samúels og Sögumiðlun. Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur til áframhaldandi endurreisnarstarfs að Brautarholti og til verndar verkum Samúels. Bókin fæst í helstu verslunum og á vef Listasafns Samúels.
Þórir Baldvinsson arkitekt
Sögumiðlun hefur gefið út bók um Þóri Baldvinsson arkitekt. Þórir var í senn framúrstefnumaður í arkitektúr og hugsjónamaður í baráttu fyrir bættum húsakosti til sveita. Hann varð fyrstur íslenskra arkitekta til að kynna nýjar húsnæðislausnir í anda funksjónalisma og var frumkvöðull í gerð slíkra bygginga hér á landi eins og samvinnuhúsanna svokölluðu við Ásvallagötu í Reykjavík og við Helgamagrastræti á Akureyri. Þar kynnti Þórir fyrstur manna til sögunnar forskölun í húsbyggingum hér á landi. Þórir teiknaði einnig fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús vítt og breitt um landið og þekktar byggingar í Reykjavík eins og Alþýðuhúsið við Hverfisgötu og Mjólkurstöðina við Laugaveg sem nú hýsir Þjóðskjalasafnið. Helsta starf Þóris var hinsvegar að veita Teiknistofu landbúnaðarins forstöðu á árunum 1938-1969. Þáttur hans í nútímavæðingu sveitanna var gríðarstór, bættur húsakostur sem hélst í hendur við vélvæðingu. Hér gefur að líta í fyrsta sinn yfirlit verka Þóris ásamt æviágripi hans. Ólafur J. Engilbertsson ritstýrir bókinni en auk hans skrifa greinar Árni Daníel Júlíusson, Jóhannes Þórðarson, Ólafur Mathiesen og Pétur H. Ármannsson sem jafnframt tekur saman verkaskrá Þóris. Úlfur Kolka sér um útlit bókarinnar en hana prýðir fjöldi ljósmynda og teikninga. Bókin er 164 blaðsíður í stóru broti. Hún fæst í helstu bókaverslunum. Hið íslenska bókmenntafélag sér um dreifingu. Einnig er hægt að panta bókina hjá Sögumiðlun og sjá nánari upplýsingar á Facebook.
Steinn Steinarr – sýning í Steinshúsi
Á sýningu um Stein Steinarr sem opnuð var í Steinshúsi við Ísafjarðardjúp 15. ágúst 2015 er fjallað um helstu æviatriði Steins Steinarr — upprunaskáldsins við Djúp, hreppaflutninga í Saurbæ, fyrstu kynni af skáldskap hjá Stefáni frá Hvítadal, nám í Dölum hjá Jóhannesi úr Kötlum, fyrstu skáldskapartilraunir, námsdvöl að Núpi, lausamennsku í vinnu, útgáfur ljóða, upphaflega gerð Tímans og vatnsins, kynni Steins og Ásthildar Björnsdóttur, ferðalög Steins, áhrif hans á ungskáld, síðustu ár hans og ýmislegt fleira. Sýningin er unnin í samstarfi við Vaxtarsamning Vestfjarða, Menningarráð Vestfjarða, Uppbyggingarsjóð Vestfjarða, Alþingi og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir frumgögn, en Steinshús fær eftirgerðir til afnota á sýningunni. Ólafur J. Engilbertsson tók saman sýningartextann og Anna Yates sá um enska þýðingu hans. Björn G. Björnsson sá um hönnun sýningarinnar ásamt Ólafi J. Engilbertssyni. Sýningin er bæði á íslensku og ensku. Nýr vefur um Stein var opnaður 2019 þar sem nokkur skáld velja uppáhalds ljóð sitt eftir Stein og einnig má hlusta þar á tónlist við ljóð Steins. Páll Svansson sá um gerð vefsins http://www.steinnsteinarr.is/
Undurfagra ævintýr - líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar
Þann 16. nóvember 2012 var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur Oddgeirsdagur í Vestmannaeyjum. Opnuð var í Safnahúsi Vestmannaeyja sögusýningin Undurfagra ævintýr - líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar að viðstöddu fjölmenni. Á sýningunni mátti hlusta á nokkur laga Oddgeirs af safnútgáfunni Undurfagra ævintýr. Sýningin var síðan sett upp í Tónlistarskóla Vestmannaeyja og í Hörpu. Á sýningunni var greint frá samstarfi Oddgeirs við Árna úr Eyjum og Ása í Bæ og sagt frá tilurð þjóðhátíðarlaganna. Sýningin var í tilefni af 100 ára minningu Oddgeirs og var í samstarfi við Minningarsjóð Oddgeirs Kristjánssonar og Menningarráð Suðurlands. Sögumiðlun ehf sá um hönnun og textagerð.